Þjóðleikhús – Leikarar

Nýjar launatölur sem og breytingar á vinnustundum og einstaka greinum eldri samnings

Samkomulag Þjóðleikhús og LÍ 1. janúar 2016

Stofnanasamningur

milli Þjóðleikhússins og þeirra starfsmanna leikhússins sem eru í BHM.

 

 

Gildissvið

Samkomulag þetta nær til félagsmanna í BHM sem starfa hjá Þjóðleikhúsinu og byggir á kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og viðkomandi aðildarfélaga BHM hins vegar, dags. 28. febrúar 2005.

 

Markmið samningsins

Samningsaðilar eru sammála um eftirfarandi meginmarkmið:

Að launakerfið sé sveigjanlegt, hlutlægt og gagnsætt og að ákvarðanir um launaröðun séu teknar með málefnalegum hætti.

Að launakerfið sé í þágu jafnréttissjónarmiða og taki mið af starfsmannastefnu Þjóðleikhússins.

Að stefna Þjóðleikhússins sé sú að ráða, halda í og byggja upp starfsmenn sem hafa hæfni og vilja til að leysa þau verkefni sem stofnuninni er ætlað að sinna.

Að launakerfið verði starfsmönnum hvatning til markvissari vinnu og stöðugrar þjálfunar / endurmenntunar.

Að launakerfið nýtist sem stjórntæki til að ná fram markmiðum Þjóðleikhússins eins og þau eru skilgreind í leiklistarlögum.

 

Starfaflokkar

Launakerfi Þjóðleikhússins byggist á eftirfarandi flokkun starfa:

Starfaflokkur 1 – leikarar

Starfaflokkur 2 – fulltrúar, sérfræðingar, deildarsérfræðingar, sviðsstjórar.

 

Röðun í launaflokka – grunnröðun.

Röðun starfa er óháð þeim einstaklingum sem nú gegna þeim. Grunnröðun starfa er lágmarksröðun. Starfsmaður getur raðast hærra með hliðsjón af þeim þáttum sem tilteknir eru í samningum svo sem vegna reynslu, hæfni og sérstakra persónu- og tímabundinna þátta.

Launakerfið byggist á eftirfarandi röðun starfaflokka í launatöflu BHM:

Starfaflokkur 1

Leikarar – 02 (frá 1. september 2006)

Leikarar – 03 (frá 1. janúar 2007)

Leikarar – 03 + 2,5% tímabundið álag ( frá 1. maí 2007 til 30. apríl 2008), nema á lífaldursþrep 30 ára, 35 ára og 40 ára.

Starfaflokkur 2

Fulltrúar – 02

Sérfræðingar – 03

Deildarsérfræðingar – 04

Sviðsstjórar – 06

Starfaflokkur 1: líf- og starfsaldurshækkanir

 • Byrjunarlaun kr. 303.046
 • Eftir 1 árs starf/lífaldur 30 ár + 1 flokk (lífaldur 30 ár: + 1 flokk frá 1. maí 2007) kr.325.036
 • Lífaldur 35 ár + 1 flokk (+ 1 flokk frá 1. maí 2007) kr. 340.638
 • Lífaldur 40 ár + 1 flokk (+ 1 flokk frá 1. maí 2007) kr. 356.989
 • Lífaldur 45 ár + 1 flokk kr. 365.556
 • Lífaldur 50 ár + 1 flokk kr. 383.103
 • Lífaldur 55 ár + 1 flokk kr.401.492

 

Starfaflokkur 2: Starfsreynsla og starfsaldurshækkanir

Starfsmanni sem raðað er í launatöflu og öðlast hefur starfsreynslu hjá leikhúsinu eftir það skal hækka sem hér segir:

Eftir fimm ár í fullu starfi hækkar hann um einn launaflokk. Eftir tíu ár í fullu starfi hækkar hann aftur um einn launaflokk.

Eftir 20 ár í starfi hjá leikhúsinu eiga starfsmenn rétt á endurskoðun á launaröðun, án þess að það sé skilyrt að slík endurskoðun feli í sér hækkun um launaflokk.

 

Starfaflokkar 1 og 2:

Álag vegna persónu- og tímabundinna þátta

Persónubundnir þættir:

Afli starfsmaður sér aukinnar starfsmenntunar eða reynslu samkvæmt endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun Þjóðleikhússins, eða taki önnur námskeið sem viðurkennd eru af samningsaðilum á starfsmaður rétt á launaflokkahækkunum eftir nánara samkomulagi.

Varðandi mat á starfstengdum námskeiðum starfsmanna skal slíkt metið í hverju tilviki fyrir sig af samningsaðilum.

Heimilt er að auki að hækka starfsmann um launaflokka ef hann uppfyllir einhverjar neðangreindar forsendur:

Starfsmaður sýnir góðan viðvarandi árangur í starfi

Starfsmaður hefur sértæka reynslu sem nýtist við störf hans hjá leikhúsinu

Starfsmaður sýnir áhuga, frumkvæði og nýsköpun í starfi

 

Stofnunin skal halda til haga skriflegum rökum sem liggja að baki hækkunar á launaflokkum samkvæmt þessum lið. Samstarfsnefnd á rétt á því að fá að sjá umræddar forsendur.

 

Tímabundnir þættir:

Meta má persónubundna þætti sem álag á launaflokka.

Meta má vægi álags til hækkunar um allt að 20% samanlagt af viðkomandi launaflokki í 2,5% bilum. Persónubundnir þættir eru sérstök kunnátta eða færni sem nýtist viðkomandi í starfi. Slíkt álag skal háð endurmati þjóðleikhússtjóra í samráði við viðkomandi starfsmann.

 

Heimilt er einnig að greiða tímabundið álag ofan á dagvinnulaun þegar umfang/ábyrgð starfs breytist vegna sérstakra verkefna. Þjóðleikhússtjóri og viðkomandi starfsmaður skulu gera með sér skriflegt samkomulag þar sem fram kemur hvaða ástæður liggi að baki álagsgreiðslum, kveðið er á um álagsprósentuna og það tímabil sem um ræðir. Við lok tímabilsins fellur álagið niður án fyrirvara. Álagsgreiðslur koma ekki í staðinn fyrir yfirvinnu.

 

Undir tímabundið álag getur einnig fallið umframvinna leikara vegna tiltekinna textamikilla hlutverka á æfingatíma. Slíkt álag kemur til álita þegar sérstakrar þjálfunar er óskað utan hefðbundinna leikæfinga, svo sem dans- og líkamsþjálfunar eða hljóðfæra- og söngþjálfunar. Slíkt álag skal semja um sérstaklega fyrir upphaf æfingatíma.

 

Einnig skal meta til álags fjölda sýninga sem viðkomandi leikari leikur á einu leikári. Álagið greiðist frá þeim tíma sem tilteknum sýningafjölda er náð og út leikárið sem hér segir:

 

 • Eftir 60 leiksýningar fær leikari 2,5% álag á mánaðarlaunataxta út leikárið.
 • Eftir 75 leiksýningar hækkar það upp í 5% álag á mánaðarlaunataxta út leikárið.
 • Eftir 90 sýningar hækkar það upp í 7,5% álag á mánaðarlaunataxta út leikárið.
 • Eftir 120 leiksýningar hækkar það upp í 12,5% álag á mánaðarlaunataxta út leikárið.

 

Sýningar á dagvinnutíma, sem standa skemur en 1 klst. skulu metnar á 60% af fullri sýningu við talningu sýningafjölda skv. ofangreindu og standi sýningar allt að 1 klst. og 30 mín, skulu þær metnar 80% af fullri sýningu við talningu sýningafjölda skv. ofangreindu. Sýningar sem sýndar eru á kvöldin eru metnar 100% í talningu óháð lengd.

 

Mat álagsþátta skal endurskoðað reglulega.

 

Forsendur launaröðunar og rökstuðningur.

Telji starfsmaður að honum sé ekki rétt raðað í launaflokk miðað við fyrirliggjandi forsendur um röðun, á hann rétt á því að fá forsendur röðunar sinnar gefnar upp og rökstuddar, sem og endurmetnar ef ástæða þykir til. Ágreiningsmálum skal skotið til samstarfsnefndar (samráðsnefndar um kjaramál eða sambærilegrar nefndar) skv. 11. kafla kjarasamnings við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

 

 

Reykjavík, 30. október 2006

 

Fh. Þjóðleikhússins                                                   F.h. BHM

 

 

 

Tinna Þórdís Gunnlaugsdóttir                                  Baldur Trausti Hreinsson

þjóðleikhússtjóri                                                        formaður LÍ

 

 

_________________________

Melkorka Tekla Ólafsdóttir

Útgarður

 

 

 

Aðalheiður Arna Rafnsdóttir

KVH

Sérstakt samkomulag
milli
Þjóðleikhússins og Leikarafélags Íslands
um starfsskyldur og vinnutíma leikara.

 

 

 

 

 1. Ráðning

Leikarar eru ýmist fastráðnir, ársráðnir eða verkefnaráðnir.

Fastráðinn leikari hefur ótímabundinn ráðningarsamning sem er uppsegjanlegur með 6 mánaða fyrirvara og skal uppsögn heimil á tímabilinu frá 1. mars – 1. júní.

Ef ástæður uppsagnar starfmanns má rekja til ástæðna sem fram koma í 21. gr. laga nr. 70/1996 (lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins) skal veita honum áminningu skv. þeirri grein og uppsögnin fer þá fram skv. 44 gr. sömu laga.

Ársráðinn leikari er ráðinn til 12 mánaða í senn og rennur ráðningarsamningur hans út án sérstakrar uppsagnar.

Ráðningartími verkefnaráðinna leikara miðast við dagsetningu á fyrsta samlestri eða fyrstu boðuðu æfingu og til síðustu sýningar og skal að jafnaði ekki vera skemmri en 4 mánuðir. Heimilt er þó að semja um ráðningu til skemmri tíma, þegar um er að ræða sérgreind afmörkuð verkefni, eða verkefni á vegum fræðsludeildar. Samið skal um slíkt fyrirfram og þess getið í ráðningarsamningi.

Ráðningarsamningur verkefnaráðins leikara skuldbindur hann þó ekki lengur en í 12 mánuði frá frumsýningu, nema um annað semjist sérstaklega. Taki verkefnaráðinn leikari þátt í fleiri verkefnum á leikárinu hefst nýtt ráðningartímabil á fyrsta samlestri eða fyrstu boðuðu æfingu á því verkefni þó hinu fyrra sé ekki lokið.

 

2.Fyrirvari og boðun

Tilkynna skal leikara um væntanleg hlutverk í leiksýningum á komandi haustmisseri áður en leikhúsið lokar að vori og um hlutverk á vormisseri næsta almanaksárs fyrir 1. desember og skal farið yfir vinnutilhögun í starfsmannaviðtali, eitt að vori og annað í desember/janúar.

Leikara skal um leið gerð grein fyrir hvenær áætlað er að reglubundnar æfingar hefjist og hvenær stefnt er að því að frumsýna. Hann skal hafa aðgang að handriti svo fljótt sem því verður við komið.

Stefnt skal að því að kalla leikhópinn saman með góðum fyrirvara til sérstaks samlestrar áður en hið eiginlega æfingatímabil hefst.

 

Þegar samfellt æfingatímabil hefst, skal fyrsti samlestur boðaður með viku fyrirvara og æfingar og sértæk verkefni hverrar viku eigi síðar en á hádegi á föstudegi í vikunni á undan. Upplýsingar um boðun eða breytingar á boðun skulu vera aðgengilegar á innra neti leikhússins og á tilkynningatöflu. Um álitamál skal leitað til sýningarstjóra viðkomandi verks.

 

3.Starfsskylda

Starfsskyldu sína innir leikari af hendi með leikæfingum, heimavinnu og sýningum samkvæmt ákvörðun og boðun leikhússins. Í starfsskyldu leikara felst einnig vinna sem fellur utan reglubundinna æfinga og sýninga, svo sem sérstök boðun vegna hönnunar og vinnslu búninga og gerva, líkams-, radd- eða söngþjálfunar eða hverskonar texta- og hugmyndavinnu með listrænum aðstandendum sýninga. Einnig fellur innan starfsskyldu leikara að taka þátt í markaðs- og kynningarstarfi vegna þeirra leiksýninga/verkefna sem hann tekur þátt í sem og almennu kynningarstarfi í þágu Þjóðleikhússins. Í starfsskyldu leikara felst einnig þátttaka í leiklestrum og dagskrám hverskonar samkvæmt ákvörðun og boðun leikhússins.

 

Lágmarks boðun vegna verkefna sem falla utan æfinga og sýninga er 1 klst. og er þá miðað við að slík vinna sé samhangandi við aðra vinnu ss. fyrir eða eftir æfingu. Ef um sérstaka boðun er að ræða þá er lágmarksboðun 3 klst. og skal boða á föstudögum vegna komandi viku. Boðun til vinnu sem fellur utan reglubundinna æfinga og sýninga er heimil á daglegum vinnutíma frá mánudegi til föstudags. Heimilt er í samráði við leikara að boða til slíkrar vinnu um helgar og skal sú vinna greidd með yfirvinnukaupi.

 

4.Æfingar

Leikstjóri skipuleggur æfingar og ákveður lengd þeirra í samráði við sýningarstjóra.Æfingar skulu vera á virkum dögum, mánudaga til og með föstudaga. Æfingar mega fara fram á tímabilinu kl. 09:00 – 23:00 þessa daga. Þó skal ekki æfa leikrit kl. 16:00 – 19:00 nema 3 af hverjum 4 leikurum í viðkomandi verki samþykki það.Hámarkslengd daglegra æfinga má vera 6 klst. Standi æfingar lengur, skal sú vinna greidd með yfirvinnukaupi.

Æfing hefst þegar leikari mætir skv. æfingaboði á leiksvið eða þegar samlestur byrjar. Æfingu lýkur þegar leikari yfirgefur svið eða þegar samlestri er hætt skv. æfingaboði. Sá tími sem leikari er að farða sig eða íklæðast leikbúningi eða sinna öðrum undirbúningi að beiðni leikstjóra, telst til æfingatímans.

Leikstjóri ákveður hvenær gerð skulu hlé á æfingum. Á 6 klst. æfingu skal veita 5 mínútna hlé fyrir hverja unna klukkustund. Eftir 6 klst. æfingu skal veita 10 mínútna hlé fyrir hverja klukkustund. Þurfi að afboða æfingu, skal það gert með minnst 12 klst. fyrirvara. Leikari skal vera laus frá æfingum minnst fjórum klukkustundum áður en leiksýning hefst sem hann er þátttakandi í.

Heimilar eru 10 kvöldæfingar á hverju verki innan vinnuskyldu. Þó mega vera 12 kvöldæfingar á fyrstu frumsýningarverkum leikársins á hverju sviði, þar af þrjár í lok undanfarandi leikárs. Kvöldæfingar umfram þessar 10 eða 12 greiðast með yfirvinnukaupi.

Leikari er undanþeginn kvöldæfingum á mánudögum nema meirihluti leikara í viðkomandi verki samþykki það enda sé æfingin greidd sem yfirvinna. Leikari er undanþeginn kvöldæfingum á föstudögum nema tvo síðustu föstudaga fyrir frumsýningu á hverju verki.

Standi kvöldæfing fram yfir kl. 22:00, þarf leikari ekki að mæta til æfingar fyrr en kl. 10:00 næsta morgun. Sama gildir ef hann hefur tekið þátt í sýningu að kvöldi.

 

5.Heimavinna

Frá fyrsta degi til síðasta dags á samfelldu æfingatímabili skal bóka 7 klst á hverja heila viku í vinnuskýrslu leikara vegna heimavinnu.

 

6.Sýningar

Sýningar geta hafist kl. 10:00 að morgni og þeim verður að ljúka eigi síðar en kl. 24:00.

Sýningar reiknast sem hér segir:

Sýning sem tekur 1 klst. eða minna í flutningi skal bóka sem 3 klst. í vinnuskýrslu. Sýning sem að meðtöldu leikhléi tekur 1½ klst. eða minna í flutningi skal bóka sem 4 klst. í vinnuskýrslu.

Aðrar sýningar skal bóka sem 5 klst í vinnuskýrslu.

Ef sýning er lengri en 3½ klst með leikhléi skal semja sérstaklega um fjölda stunda í vinnuskyldu.

Taki leikari þátt í tveim leiksýningum á sama leikriti sama daginn, á hann rétt á 30 mín. hléi milli sýninga. Ef sýningar verða þrjár eða fleiri verður að gefa að minnsta kosti eitt 60 mín. hlé milli sýninga. Ef um tvö ólík verk er að ræða verður að gera ráð fyrir að 2 klukkustundir líði frá því að sýningu á fyrra verki lýkur og þar til sýning á því síðara hefst. Biðtími milli sýninga er greiddur skv. gr. 1.6.3. í kjarasamningi LÍ og Fjármálaráðherra. Ef ekki er unnt að tryggja þennan tíma vegna skipulags starfseminnar, skal viðkomandi leikara greidd yfirvinna vegna þess tíma sem vantar upp á fyrrgreint hlé. Ekki er heimilt að sýna á mánudagskvöldum, nema annan dag jóla beri upp á mánudag. Sýningaáætlun skal liggja fyrir með mánaðarfyrirvara, breytingar eru heimilar með tveggja vikna fyrirvara. Afboðun sýninga vegna veikinda eða ófyrirsjáanlegra utanaðkomandi aðstæðna eru heimilar sem hér segir:

Ef sýning er afboðuð með skemmri en 6 klst. fyrirvara skulu skráðar 3 klst. í vinnuskýrslu leikara á virkum dögum en 4 klst. um helgar. Sýning sem afboðuð er með lengri fyrirvara skal ekki skráð í vinnuskýrslu.

 

7.Vinnutími, álag og yfirvinna

Dagvinna leikara skal unnin á tímabilinu 09:00 til 18:00 frá mánudegi til föstudags.

Vinnuskylda starfsmanns yngri en 30 ára er 43,39 klst./viku.

Vinnuskylda starfsmanns sem nær 30 ára aldri á því almanaksári sem tímabil sumarorlofs tilheyrir er 42,81 klst./viku.

Vinnuskylda starfsmanns sem nær 38 ára aldri á því almanaksári sem tímabil sumarorlofs tilheyrir er 42,23 klst./viku.

Starfsmenn teljast þá hafa unnið af sér þann tíma sem Þjóðleikhúsið er lokað yfir sumartímann umfram orlof. Miðað er við að Þjóðleikhúsið sé lokað frá 1. júlí til 1. september ár hvert. Þjóðleikhúsinu er heimilt að breyta þeim dagsetningum um 15 daga til eða frá, þó þannig að fáist samfellt 2ja mánaða vinnuhlé.

Vinnuskylda verkefnaráðinna leikara er 40,00 klst./viku.

Uppgjörstími mánaðarlauna, yfirvinnu- og álagsgreiðslna er 1 mánuður. Uppgjör mánaðarlauna miðast við almanaksmánuð, en uppgjör yfirvinnu- og álagsgreiðslna miðast við 13. dag mánaðar til 12. dags mánaðarins næst á eftir.

 

8.Leikferðir

Leikferðir eru innan starfsskyldu leikara. Leikferðir þar sem gist er fjarri heimili geta þó ekki staðið lengur en í 6 vikur á ári, nema með sérstöku samþykki allra leikara í verkefninu. Þar af má samfelld leikferð ekki standa lengur en í 3 vikur. Leikara skal tilkynnt um leikferð með minnst mánaðar fyrirvara.

Í leikferðum reiknast hver dagur sem 8 klst. Vinna við önnur leiklistarstörf úti á landi eða erlendis reiknast sem 8 klst. vinna á dag, frá brottfarardegi til komudags.

Ef um leikferð er að ræða sem farin er innan daglegs vinnutíma og leikari þarf ekki að dvelja fjarri heimili sínu yfir nótt, skulu ekki greiddir dagpeningar. Í slíkum leikferðum skal Þjóðleikhúsið greiða fyrir fæði og ferðakostnað.

 

9.Sértækt framsal

Í sérstökum tilvikum og komi fram ósk um slíkt getur leikhúsið gefið aðstandendum og leikhópi tiltekinna sýninga umboð og heimild til að sýna viðkomandi sýningu, eða brot úr henni utan Þjóðleikhússins, úti á landi eða erlendis. Þegar ósk um slíkt kemur fram skal hún metin í hverju tilviki fyrir sig og einungis tekin til skoðunar að því tilskyldu að reglubundnum sýningum í leikhúsinu sé lokið, hvort heldur er vegna sumarleyfa, eða vegna þess að verkefni er ekki lengur á dagskrá leikhússins. Við þær aðstæður skal þess gætt að Þjóðleikhúsið hafi hag og sóma af slíku framsali. Þá skal það tryggt, að höfundaréttur allra sem að verkefninu koma sé virtur og gerðir séu samningar við alla viðkomandi rétthafa.

 

 1. Ráðningarfesta

Fast- eða ársráðnum leikara er ekki heimilt að taka að sér hlutverk eða starf í öðru leikhúsi meðan hann er ráðinn sem leikari hjá Þjóðleikhúsinu, nema í samráði við þjóðleikhússtjóra. Slíkt leyfi skal aðeins veitt að því tilskyldu að viðkomandi sé ekki að æfa eða sýna í Þjóðleikhúsinu á sama tímabili og það raski ekki starfsemi leikhússins eða áætlunum.

Í slíkum tilvikum ber viðkomandi að losa samning sinn við Þjóðleikhúsið (taki launalaust leyfi) þann tíma sem hann er í starfi í öðru leikhúsi.

Ef verkefni skarast og leikari er enn að sýna í Þjóðleikhúsinu, eftir að hið launalausa leyfi hefur verið heimilað, skal leikaranum boðið að taka hlutfall af mánaðarlaunum vegna þeirra sýninga sem útaf standa, samkvæmt nánara samkomulagi milli leikara og þjóðleikhússtjóra. Í þeim tilvikum skal það liggja til grundvallar að sýningar Þjóðleikhússins njóti forgangs, svo áætlanir þess raskist ekki. Æski leikarinn þess að losa sig alfarið úr viðkomandi sýningu, frekar en að þiggja hlutfall af mánaðarlaunum skal hann taka þátt í að æfa inn annan leikara í hlutverkið.

Taki leikari að sér hlutverk í öðru leikhúsi án samráðs, getur þjóðleikhússtjóri tekið einhliða ákvörðun um að taka viðkomandi af launum meðan á vinnu hans í öðru leikhúsi stendur. Verkefnaráðinn leikari skal hafa samráð við þjóðleikhússtjóra vilji hann ráða sig til annars leikhúss jafnhliða samningi við Þjóðleikhúsið.

 

 1. Fræðslumál

Starfsmanni er heimilt að óska eftir allt að þriggja mánaða námsleyfi á launum á 5 ára fresti í samráði við þjóðleikhússtjóra. Slíkt leyfi skal sækja um að vori vegna komandi leikárs. Fyrirvari getur þó verið skemmri ef um það næst sátt milli aðila.

 

 1. Forvinna og lengd ráðningartíma

Þegar kalla þarf verkefnaráðna leikara til forvinnu sem nemur stökum samlestri /samlestrum samkvæmt kaflanum um fyrirvara og boðun, skal það gert í samráði við viðkomandi leikara og honum greidd laun samkvæmt lið 1.4.2. í kjarasamningi fyrir þann tíma sem forvinnan stendur, enda líði meira en mánuður frá lokum forvinnu þar til samfelldar æfingar hefjast.

Ef hlé verður á æfingum, eftir að reglubundnar æfingar hefjast, sem nemur meira en tveim mánuðum, er heimilt að taka verkefnaráðinn leikara af launum þann tíma sem hléið varir, enda sé það gert í samráði við viðkomandi leikara og liggi ljóst fyrir við undirritun verkefnasamnings. Verkefnaráðnum leikurum eru ekki greidd mánaðarlaun á tímabili sumarorlofs.

 

 1. Páskafrí

Leikarar skulu eiga samfellt vikufrí í páskavikunni þ.e. frá og með miðvikudegi fyrir páska, til og með þriðjudagsins eftir páska. Ef nauðsyn kallar á æfingar á miðvikudegi / þriðjudegi vegna frumsýningar skömmu eftir páska, er heimilt með samþykki leikara að boða til æfinga sem skulu þá undantekningalaust greiddar með yfirvinnukaupi.

 

 

 

 1. Gildistími

Samkomulag þetta gildir frá undirskrift til 30. apríl 2008.

 

 

 

 

Reykjavík 30. október 2006

 

 

Fh. Þjóðleikhússins                                                   F.h. Leikarafélags Íslands

 

 

 

 

Tinna Þórdís Gunnlaugsdóttir                                  Baldur Trausti Hreinsson

Þjóðleikhússtjóri                                                        Formaður LÍ

 

 

 

 

 

 

 

 

Bókun 1

Sérstök tímabundin umbun.

Heimilt er að gera samning við starfsmann um að taka að sér sérstakt verkefni sem felur í sér tímabundið álag sem varir í að lágmarki einn mánuð og telst ekki felast í viðkomandi starfi, eða fellur utan hefðbundinnar vinnuskilgreiningar. Slík tímabundin verkefni geta verið t.d. átaksverkefni í markaðsmálum, dagskrárgerð ýmis konar eða umsjón með listrænum verkefnum, svo sem leiklestrum/söngdagskrám. Aðstoð við listræna stjórnendur og hvísl getur einnig fallið undir slík verkefni. Umbunin getur að hámarki verið 30.000 kr. á mánuði og tekur ekki breytingum á samningstímanum. Slíkur viðbótarsamningur skal vera skriflegur og skal þar kveðið á um efnisatriði hins sérstaka verkefnis. Umbun þessi eða launaviðbót sem byggir á tímabundnum verkefnasamningi fellur niður við lok verkefnanna sem um ræðir eða í síðasta lagi í lok samningstíma án sérstakrar uppsagnar af hálfu stofnunarinnar.

 

Bókun 2

Árangur yfirfærslu í nýtt launaumhverfi leikara

Vegna þeirra grundvallarbreytinga, sem verið er að gera á launakerfi leikara, er ógerlegt að gera nákvæman og raunhæfan samanburð milli heildarlauna í gamla kerfinu og því nýja.

Aðilar eru því sammála um að á leikárinu 2006-2007 skrái Þjóðleikhúsið launa leikara bæði eftir nýja kerfinu og því gamla þannig að raunhæfur samanburður fáist, sem nýta megi og hafa til hliðsjónar við næstu samningagerð.

 

Bókun 3

Þjóðleikhúsið skal skipa nefnd sem fjallar um og býr til starfsmannastefnu. Stefnt skal að því að nefndin skili af sér verkinu fyrir 1. febrúar 2007.

 

Bókun 4

Samningsaðilar eru sammála um að stefnt skuli að því að Þjóðleikhúsið geti a.m.k. árlega boðið leikurum sínum upp á námskeið af einhverju tagi sem stuðli að aukinni kunnáttu þeirra og færni í starfi.

Starfsmenn sem sækja fræðslu- eða þjálfunarnámskeið samkvæmt beiðni Þjóðleikhússins halda reglubundnum launum á meðan og fá greiddan kostnað vegna þeirra.

 

Bókun 5

Samningsaðilar skulu fyrir 1. desember 2006 gera samkomulag er varðar upptökur og útgáfu á CD/DVD á vegum Þjóðleikhússins.

Instagram feed