Uppsprettan – skyndileikhús

Það gleður okkur  í Uppsprettunni að tilkynna að næsta skyndileikhús okkar verður mánudagskveldið 9. febrúar í Tjarnarbíói. En afhverju ættir þú að hafa áhuga á því?
Þú hefur líklegast fengið þennan tölvupóst því þú tilheyrir fagfélagi tengdu leiklist. Hluti af því að starfa í leikhúsi er að hafa augun opin fyrir nýjum hlutum og kynna sér fjölbreytileika innan listarinnar. Það er það sem Uppsprettan leitast við að bjóða þér upp á á einungis einni kvöldstund! Eða allavega hluta af því.

Uppsprettan snýst um að kynna ný íslenskt stuttverk, leikstjóra og leikara. Hún er öllum opin sem eru með leikaramenntun, en höfundahlutinn er öllu skrifandi fólki opin. Það er ótrúlegt hversu fjölbreyttir hópar fólks eru að skrifa handrit og fáum við um 20-30 handrit í hvert sinn sem við höldum Uppsprettuna. Svo taka þrír leikstjórar þátt og um 10-15 leikarar. Þetta þýðir að á tveggja til þriggja mánaða fresti hefur þú tækifæri til að skoða nýja hæfileika.

Þú getur mætt í Tjarnarbíó kl 18:00 á sýningardegi. Þá eru leikhóparnir rétt að byrja að vinna með handritin í æfingarrými og þú getur fylgst með, því æfingarnar eru opnar! Þú getur meira að segja lesið í gegnum handritið áður en þú ferð inn á æfinguna, til að kynna þér handritið, og sjá svo hvernig hópurinn hefur ákveðið að vinna það. Þú getur valsað frjálst á milli æfingarýmanna þriggja og kíkt svo við og við aftur inn á kaffihús Tjarnarbíós, fengið þér eitthvað að sötra og spjallað við aðra kunningja og gesti um það sem þið hafið verið að fylgjast með. Kl. 21:00 er lokaútkoman svo sýnd.

Það sem þú verður vitni að eru leikarar og leikarstjórar að vinna undir nokkurri pressu. En þú sérð glögglega vinnuaðferðir þeirra og ferli. Þú sérð líka hversu vel þau vinna undir álagi.

Svo er hægt að kynnast listamönnunum miklu betur með því að taka þátt í Uppsprettunni, því hún er ekki bara fyrir nýgræðinga, heldur fyrir hvern sem er sem langar til að kynna sér nýja hluti og er ekki hræddur við áskoranir.

Við vonumst allavega til að sjá þig mánudaginn 9. febrúar í Tjarnarbíói.

Lifi leiklistin!

Uppsprettan

spretturupp@gmail.com

facebook.com/uppsprettan