
Þjóð gegn þjóðarmorði – fjöldafundur á laugardag
Ágætu félagar
Á laugardaginn, 6. september kl. 14.00 verður haldinn mótmælafundur – Þjóð gegn þjóðarmorði – þar sem heildarsamtök launafólks, verkalýðsfélög, mannúðarsamtök, fagfélög og önnur samtök taka saman höndum og halda mótmælafundi um land allt til að sýna samstöðu með Palestínsku þjóðinni og krefjast þess að íslensk ríkisstjórn grípi til alvöru aðgerða til að sýna afstöðu sína gegn því þjóðarmorði sem fram fer af hálfu Ísraelsríkis sem og brotum þeirra á alþjóðalögum.
Fundurinn er haldinn á nokkrum stöðum á landinu og á höfuðborgarsvæðinu er fundarstaðurinn Austurvöllur. Á annað hundrað félaga og heildarsamtaka hafa skráð sig sem þátttakendur fundarins og FÍL er þar á meðal.
Hér er linkur inn á Facebook síðu viðburðarins Þjóð gegn þjóðarmorði - Reykjavík | Facebook
Við hvetjum félagsmenn FÍL til að mæta til fundarins í nafni mannúðar og bendum á að félagsmenn í Klassís, hópur kórsöngvara ásamt einsöngvurum munu flytja verk Sigurðar Sævarssonar við ljóð Dags Hjartarsonar, Hvers vegna þessi þögn, á samstöðufundinum fyrir Palestínu. Þetta er mjög sterkt ljóð og virkilega fallegt verk sem Sigurður samdi í fyrra. Aðrir sem vilja sýna samstöðu og taka þátt í flutningi á nýju tónverki á fundinum eru velkomnir og hvattir til að mæta í Dómkirkjuna klukkan 13:30 á laugardaginn og fara yfir verkið . Kórpartarnir eru einfaldir, bara humm á c-i í þrenns konar ritma. Stjórnendur söngsins sjá fyrir sér að almenningur geti líka tekið þátt með því að syngja Alt 2 eða Bassa 2.