Stockfish – Ný kvikmyndahátíð

Stockfish European Film Festival in Reykjavík verður haldin dagana 19.febrúar – 1.mars 2015 í Bíó Paradís. Hátíðin er haldin í samvinnu við Heimili kvikmyndanna, Bíó Paradís og fagfélög í kvikmyndaiðnaðinum á Íslandi, þar með talið Félag íslenskra leikara.

Margt spennandi verður á dagskránni og eru félagsmenn hvattir til að skoða prógrammið á heimasíðu hátíðarinnar http://stockfishfestival.is/

Markmið hátíðarinnar er að efla íslenska kvikmyndamenningu á breiðum grundvelli.

Á meðal gesta verða þekktir verðlaunaleikstjórar og aðrir alþjóðlegir kvikmyndagerðarmenn. Áhersla verður lögð á að sýna það nýjasta úr kvikmyndagerð heimsins og þá verður sérstök áhersla lögð á tengslamyndun íslenskra og erlendra kvikmyndagerðarmanna.

Hátíðin er samstarfsverkefni allra hagsmunaaðila í kvikmyndageiranum á Íslandi. Markmiðið með hinni endurvöktu hátíð er að þjóna samfélaginu sem hún sprettur úr, efla og auðga kvikmyndamenningu á Íslandi árið um kring og vera íslenskum kvikmyndaiðnaði lyftistöng bæði erlendis og innanlands. Allt kapp verður lagt á að starfrækja Stockfish European Film Festival in Reykjavík á faglegan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt með stjórn skipaðri úr fagfélögum kvikmyndaiðnaðarins.