Samningur FÍL og Þjóðleikhússins

Sem kunnugt er voru samningar Þjóðleikhússleikara við Fjármálaráðuneytið settir í gerðardóm. Úrskurður dómsins var talsvert undir þeim launatölum sem FÍL hafði samið um við Leikfélag Reykjavíkur og Menningarfélagið Hof eða allt að 25% ef miðað er við 1. janúar næsta árs.

Þjóðleikhússtjóri brást við ákalli sinna starfsmanna og lagði til að Leikhúsið brúað bilið tímabundið, eða þar til tekst að semja um ásættanleg kjör við Stjórnvöld. Því var í gær undirritaður bráðabirgðasamningur milli Þjóðleikhússins og Leikarafélags Íslands / Félags íslenskra leikara, sem gildir fram að áramótum, um að grunnlaun í Þjóðleikhúsi tækju álíka hækkun og greitt er hjá öðrum atvinnuleikhúsum.   Álagsgreiðslum var skipt út fyrir sýningakaup en að öðru leyti voru ekki gerðar breytingar á vinnutilhögun. Yfirvinna leikara við Þjóðleikhús er enn gerð upp á mánaðargrundvelli en ekki vikulega eins og í hinum leikhúsusnum og vinnuskylda er hærri, af því leiðir að heildarkjör leikara við Þjóðleikhúsið eru því ekki enn sem komið er ekki fyllilega sambærileg við kjör leikara við hin húsin.

Félag íslenskra leikara hefur formlega óskað eftir fundi með samninganefnd ríkisins til að hefja viðræður á ný þrátt fyrir úrskurð Gerðardóms. Setja þarf samninga leikara við Þjóðleikhúsið í þann búning sem hentar starfi leikarans eins og gert hefur verið í hinum húsunum og verður það verkefni næstu vikna og mánaða bæði við SNR vegna aðalkjarasamnings og Þjóðleikhúsið vegna stofnanasamnings.

Setjum hér inn nánari fréttir af gangi mála um leið og tilefni er til.