Pétur Einarsson 1940 – 2024

Ástkær félagsmaður í FÍL, Pétur Einarsson, lést þann 24. apríl sl á hjúkrunarheimilinu Mörk.

Pétur fæddist 31. október 1940. Hann lauk námi frá Leiklistarskóla LR og stundaði einnig leiklistarnám í Georgíu í Bandaríkjunum.

Í leikhúsinu átti Pétur Einarsson glæstan feril, hann lék í og/eða leikstýrði á annað hundrað sviðsverkum, flest voru þau hjá Leikfélagi Reykjavíkur en Pétur starfaði einnig hjá Leikfélagi Akureyrar og Þjóðleikhúsinu, með leikfélaginu Grímu, Alþýðuleikhúsinu, Litla Leikfélaginu og Nemendaleikhúsinu. Pétur lék einnig fjölmörg hlutverk í íslenskum sjónvarps – og kvikmyndum.

Pétur var afkastamikill leikstjóri og einn af stofnendum Félags leikstjóra á Íslandi, þar sem hann gengdi trúnaðarstöfum m.a. formennsku um tíma.

Þegar Leiklistarskóli Íslands var stofnaður haustið 1975 varð Pétur fyrsti skólastjóri skólans og stýrði starfi og uppbyggingu skólans allt til ársins 1983.

Pétur var félagsmaður í FÍL frá árinu 1966 og um leið og við vottum fjölskyldu Péturs og ástvinum innilega samúð þá þökkum við okkar góða félaga áratuga samfylgd.

Útför Péturs Einarssonar fer fram frá Hallgrímskirkju þriðjudaginn 7. maí kl. 13.00