Jón Sigurbjörnsson – minning

Jón Sigurbjörnsson var fæddur 1. nóvember 1922, látinn 30. nóvember 2021

Jón lagði stund á leiklistarnám í Reykjavík hjá Lárusi Pálssyni og síðar í Bandaríkjunum en hann útskifaðist frá American Academy og Dramatic Arts í New York árið 1948. Einnig menntaði hann sig í söng hérlendis og á Ítalíu.  Jón Sigurbjörnsson var einn ástsælasti listamaður þjóðarinnar.  Hann starfaði áratugum saman sem leikari, hann leikstýrði fjölmörgum leikverkum, hann söng í óperuuppfærslum og lék í kvikmyndum og sjónvarpsmyndum.  Jón lék um 120 hlutverk á sviði, þar af í fjölda ópera og söngleikja. Þá lék hann í útvarpsleikritum, sjónvarpsleikritum og kvikmyndum en síðasta kvikmyndahlutverkið var í stuttmyndinni Síðasta bænum eftir Rúnar Rúnarsson.

Jón lék lengst af með Leikfélagi Reykjavíkur en var einnig fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið um tíma sem og hjá konunglegu sænsku óperunni í Stokkhólmi. Jón söng einnig hér heima, meðal annars hlutverk nautabanans í Carmen, sem hann leikstýrði sjálfur hjá Þjóðleikhúsinu. Hann söng í íslensku óperunum Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson.  Árið 1977 söng Jón inn á hljómplötuna Fjórtán sönglög og árið 2003 gaf Ríkisútvarpið út veglegan geisladisk með söng Jóns undir yfirskriftinni Útvarpsperlur

Jón var formaður Félags íslenskra leikara 1961-63 og aftur árið 1975. Hann var formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956-59 og heiðursfélagi Leikfélags Reykjavíkur.  Jón var sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar árið 2005.

Dætrum Jóns og öðrum ástvinum færum við okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum af heilum hug fyrir framlag Jóns til listarinnar og lífsins.