FÍL – 80 ára afmæli – 22.sept. 1941 -2021

Fyrst kom til tals á meðal leikara að stofna með sér félag í kringum 1930 en það var ekki nægilegur áhugi fyrir því þá. Hugmyndinni var þó haldið á lofti og...

"Í byrjun júnímánaðar árið 1941 komu neðanskráðir leikarar saman á fundi í Iðnó (uppi) til skrafs og ráðagerða um stofnun félagsskapar meðal íslenskra leikara: Brynjólfur Jóhannesson, Gestur Pálsson, Haraldur Björnsson, Indriði Waage, Lárus Pálsson, Valur Gíslason og Þorsteinn Ö. Stephensen. Brynjólfur Jóhannesson, sem boðað hafði til fundarins, tók fyrstur til máls og skýrði frá því, að oft hefði verið um það rætt meðal íslenskra leikara hversu nauðsynlegt það væri að þeir stofnuðu með stéttarfélag en ennþá hefði ekki orðið úr framkvæmdum.“

( úr fundargerð undirbúningsfundar að stofnun FÍL – 50 ára afmælisrit)

Á stofnfundinn þann 22. september árið 1941 mættu 16 leikarar, 11 karlar og 5 konur.

Fyrsti formaður félagsins var kjörinn Þorsteinn Ö. Stephensen, ritari Haraldur Björnsson og gjaldkeri Lárus Pálsson.

Á fundinum voru fyrstu lög hins nýstofnaða félags samþykkt. Þar eru tilgreind ýmis markmið og eitt þeirra er að gæta hagsmuna félagsmanna og að félagið komi fram fyrir hönd þeirra gagnvart einstaklingum og opinberum fyrirtækjum í ölllum hagsmunamálum stéttarinnar.

Enn er svipað orðalag í lögum félagsins enda hefur kjarnastarfsemi FÍL ekki breyst frá stofnun þess.

Áherslan er og verður á að bæta kjör og starfsumhverfi félagsmanna.

Öllu því góða fólki sem lagt hefur á sig ómælda vinnu við stjórnarstörf í FÍL eiga félagsmenn mikið að þakka.