Erna nýr framkvæmdastjóri BHM

Stjórn Bandalags háskólamanna (BHM) hefur ráðið Ernu Guðmundsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra bandalagsins. Erna er fædd árið 1970 og hefur verið lögmaður BHM í um áratug eða frá árinu 2007. Fyrstu sjö árin var hún jafnframt lögmaður Kennarasambands Íslands eða allt til ársins 2014 þegar hún var ráðin í fullt starf hjá BHM. Á árunum 1999–2007 var hún lögmaður BSRB og var einnig um skeið forstöðumaður starfsmannasviðs Tollstjóra.

Erna lauk embættisprófi í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 1999 og öðlaðist réttindi til að vera héraðsdómslögmaður árið 2001. Hún hefur einnig lokið BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur setið í fjölmörgum nefndum og vinnuhópum á vegum BHM, m.a. í samninganefndum vegna kjaraviðræðna. Þá hefur hún setið í stjórn Vinnueftirlitsins frá árinu 2015, samráðsnefnd velferðarráðuneytisins vegna EES-samningsins frá árinu 1999 og sat í ráðgjafarnefnd EFTA á árunum 1999–2006.

Frétt tekin af síðu BHM