Andlát: Þráinn Karlsson, leikari

Þráinn Karlsson leikari er látinn. Þráinn hefði orðið 77 ára í dag, en hann fæddist 24. maí í Gamla barnaskólanum á Akureyri árið 1939. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 22. maí.

Þráinn lauk ungur að árum vélsmíðanámi og síðar meistaranámi frá Vélskólanum á Akureyri. Framan af starfsævinni starfaði hann sem vélsmiður en hóf að leika með Leikfélagi Akureyrar árið 1956.

Þráinn Karlsson var fastráðinn leikari hjá Leikfélagi Akureyrar frá því að félagið varð að atvinnuleikhúsi árið 1971 og fór með fjölda hlutverka í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Þráinn var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins árið 1974 og það sama ár gerðist hann meðlimur í Félagi íslenskra leikara.

Þráinn var einn helsti máttarstólpi Leikfélags Akureyrar þar sem hann lék fjölda burðarhlutverka í meira en fimm áratugi auk þess sem hann leikstýrði og hannaði leikmyndir.  Meðal hlutverka Þráins mætti nefna Sganarelle í Don Juan, Skrifta-Hanns í Ævintýri á gönguför, Þórð í Stalín er ekki hér, Bjart í Sjálfstæðu fólki, Matta í Púntilla og Matta, Anton Antonovitsj í Eftirlitsmanninum, Roulin bréfbera í Bréfberanum frá Arles, hlutverk í My Fair Lady og í Edith Piaf, Ezra Pound í Skjaldbakan kemst þangað líka, Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni, Eddie Carbone í Horft af brúnni, karlhlutverkin í BarPari, Fangavörðinn í Leðurblökunni, Charlie Baker í Útlendingnum, Angel í Undir berum himni, Jeeter Lester í Tobacco Road, Póloníus í Hamlet, Ananías í Gullbrúðkaupi og er þá fátt eitt talið.  Hann leikstýrði einnig nokkrum vinsælustu sýningum félagsins, svo sem Ættarmótinu, Fátæku fólki og Blessuðu barnaláni. Hann starfaði um tíma í Þjóðleikhúsinu og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi.

Árið 2006 var fimmtíu ára leikafmæli hans fagnað í Samkomuhúsinu á Akureyri. Þráinn leikstýrði hjá áhugafélögum á Norðurlandi og gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Leikfélag Akureyrar, Félag íslenskra leikara, Iðnnemafélag Akureyrar og fleiri. Samhliða leikarastörfum sinnti hann myndlist.

Þráinn hlaut fjölda viðurkenninga um starfsævina og var m.a. valinn bæjarlistamaður Akureyrar 1995-1996 og helgaði hann þann vetur myndlistinni.

Eftirlifandi eiginkona Þráins er Ragnheiður Garðarsdóttir. Dætur þeirra eru Rebekka, þroskaþjálfi og rússneskufræðingur og Hildigunnur, leikari og ritstjóri. Stjúpdóttir Þráins er Kristín Konráðsdóttir, bókavörður.

Jarðarför Þráins Karlssonar mun fara fram frá Akureyrarkirkju mánudaginn 30. maí n.k.

Félag íslenskra leikara þakkar Þráni áralanga gefandi samfylgd, ómetanlegt framlag í þágu félagins og listarinnar og sendir fjölskyldu og vinum samúðarkveðjur