Alþjóðlegur dagur leiklistar 27. mars

Til hamingju með daginn!  Hér að neðan má sjá ávörp sem samin voru í tilefni dagsins.

Alþjóðlega ávarpið er ritað af Carlos Celdrán og birtist hér í þýðingu Hafliða Arngrímssonar.

Tyrfingur Tyrfingsson leikskáld skrifaði íslenska ávarpið.

 

Boðskapur á heimsleikhússdeginum 2019 - Carlos Celdrán

Þegar áhugi minn á leikhúsi vaknaði og ég hóf þar störf höfðu lærifeður mínir þá þegar sett mark sitt á það. Þau höfðu byggt heimili sín og skáldlega sýn á því sem þeirra eigin líf hafði skilið eftir. Mörg þeirra eru ekki þekkt eða fólk minnist þeirra sjaldan.  Þau störfuðu í þögn, af auðmýkt og hógværð æfingasala sinna og þéttsetinna leikhúsa og eftir margra ára ótrúlega vinnu og framúrskarandi afrek, yfirgáfu þau smám saman svæðið og létu sig hverfa. Þegar ég skildi að störf mín og persónuleg örlög fólust í því að feta í fótspor þeirra, skildi ég einnig að ég fékk í arf frá þeim þá einstöku arfleifð að lifa í núinu, án nokkurra annarra væntinga en að ná gegnsæi einstaks og óafturkræfs augnabliks, - andartak samveru með öðrum í rökkri leiksalarins og aðeins vernduð af sönnu látbragði, afhjúpandi orði.

Leikhúsheimur minn er búinn til úr augnablikum samveru minnar með áhorfendum sem koma í leikhúsið kvöld eftir kvöld úr ólíkustu afkimum borgarinnar sem ég starfa í til að vera með okkur fáeinar klukkustundir, fáeinar mínútur. Líf mitt grundvallast á þessum sérstæðu mínútum, þegar ég hætti að vera „ég“ og þjást fyrir sjálfan mig, endurfæðist ég og skil hvaða þýðingu leikhússtarfið hefur: Augnablik einskis annars en skammlífs sannleika þegar við vitum að það sem við segjum og gerum í  sviðsljósinu er satt og endurspeglar hið dýpsta og persónulegasta hjá okkur sjálfum. Leikhúsheimur minn, og leikara minna, er heimur ofinn úr augnablikum sem við skiljum eftir á bak við grímuna, mælskuna, óttann við að vera það sem við erum, og við tökumst í hendur í myrkrinu.

Hefðir leikhússins eru láréttar. Enginn getur fullyrt að til sé einhver forréttindastaður í heiminum, í einhverri borg, í einhverri byggingu. Leikhúsið eins og ég fékk það, breiðir úr sér um ósýnilegar lendur, sem renna saman við líf leikhúsfólksins, og þeirra sem standa á sviðinu og einnig þeirra sem sjást ekki, í eina sameiginlega hreyfingu. Allir meistarar leikhússins, konur og karlar, vita að þau deyja ásamt augnablikunum óafturkræfu, tæru og fögru, án þess að  nokkur varðveitti þau og gerði fræg. Augnablik sannleika, tvískinnungs, krafts, frelsis í ógnar óvissu. Ekkert af verkum meistaranna mun lifa af, nema dagsetningar og vitnisburður verka þeirra í vídeóum og ljósmyndum, sem einungis geta miðlað fölri hugmynd um það sem þau skópu. Og það sem alltaf mun skorta í þessar heimildir eru þögul viðbrögð áhorfenda sem skilja samstundis að það sem á sér stað er ómögulegt að yfirfæra og er hvergi að finna utan leikhússins, að sannleikurinn sem þeir hafa upplifað í sameiningu er lífsreynsla í fáeinar sekúndur, jafnvel gegnsærri en lífið sjálft.

Þegar ég uppgötvaði að leikhúsið væri land í sjálfu sér, gríðarstórt meginland sem breiðir úr sér yfir allan heiminn, varð til innra með mér staðföst ákvörðun sem lýsti sér einnig sem frelsi: Þú þarft ekki að fara langt burt, eða flytja þaðan sem þú ert, þú þarft ekki að hlaupa eða hreyfa þig. Áhorfendur eru þar sem þú ert. Þar er samferðafólkið sem þú þarfnast þér við hlið. Þar, fyrir utan heimili þitt, hefurðu ógegnsæjan og óskiljanlegan raunveruleikann. Starf þitt vex úr þessu sem virðist vera kyrrstaða og þú býrð til stærstu ferðalög, endurtekur Ódisseif, ferðir geimfaranna: Þú ert kyrrstæður ferðalangur sem eykur í sífellu hraða, þéttleika og festu á raunverulegum heimi þínum. Ferð þín er í átt að augnablikinu sem aldrei er hægt að endurtaka, að fundi við jafningja þína. Ferð þín er til þeirra, inn í hjarta þeirra, inn í sál þeirra. Þú ferðast innra með þeim, í tilfinningum þeirra og minningum sem þú vekur og hreyfir við. Enginn getur mælt eða þagað yfir svimandi ferðalagi þínu, það er ferð um fantasíu fólksins þíns, fræ, sem sáð er á fjarlægustu svæðum: Hinni pólitísku, siðferðilegu og mannlegu samvisku áhorfenda þinna. Þess vegna hreyfi ég mig ekki og verð um kyrrt heima, hjá mínum nánustu, í kyrrð og ró, að því er virðist, og vinn dag og nótt, vegna þess að ég á leyndarmál hraðans.

Havanna (Kuba) í janúar 2019

Þýðing: Hafliði Arngrímsson

Carlos Celdrán

Carlos Celdrán fæddist á Kúbu árið 1963, þar sem hann lifir og starfar sem leikstjóri, skáld og leiklistarkennari. Hann lauk leiklistarnámi árið 1986 og vann síðan sem ráðgjafi og síðar sem leikstjóri í Teatro Buendía í Havanna.  Árið 1996 stofnaði hann leikhópinn Argos Teatro, þar sem hann er til þessa dags listrænn stjórnandi og hefur einbeitt sér að því að kynna fyrir kúbverskum áhorfendum evrópska leikritun bæði sígilda og samtímaleikritun. Með sýningum á leikritum Brechts, Ibsens, Beckets og Strindberg og einnig evrópskum samtímaleikritum hefur Argos leikhúsið blásið nýju lífi í leikritun á Kúbu.  Þetta hefur hleypt leikskáldum þar í landi kapp í kinn enda hefur Argosleikhúsið sýnt fjölda kúbverskra samtímaleikrita eftir leikskáld á borð við Gonzalez Melo og mörg fleiri. Argos leikhúsið er eitt þekktasta leikhús Kúbu, sýning þess „Tíu milljónir“ sem Calderán skrifaði hefur ferðast um heiminn og einnig nýjasta sviðsetningin „Leyndardómar og smá leikrit“ („Misterios y pequeñas piezas“, 2018). Carlos Calderán hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar, þar á meðal kúbversku gagnrýnendaverðlaunin sextán sinnum fyrir „bestu sýninguna“. Hann hefur kennt leikstjórn í meir en tuttugu ár við Instituto Superior de Arte de Cuba.

 

Nokkur orð um hlutverk Soffíu frænku - Tyrfingur Tyrfingsson

Það er fræg sagan af íslenskri leikkonu á 20. öld sem fékk hlutverk Soffíu frænku í Kardemommubænum og sló í gegn, þannig að í næstu uppfærslu á allt öðru leikriti ákvað hún að leika Soffíu frænku bara aftur. Og í næstu uppfærslu aftur. Þeir segja að hún hafi gert Soffíu frænku úr öllum persónum síðan og að um sjötugt hafi þær Soffía runnið í eitt og orðið sama konan.

Hún er minna fræg sagan af vinkonu minni sem mætir í fermingarveislur í karakter. Í ár keypti hún sér mussu og ætlar að leika keramiker bæði í kirkjunni og í veislunni. Ástæðan er sú að keramiker hefur um nóg að tala – hún getur drullað yfir leirtauið og gert grín að keramikdýrum við gamlan homma. Í fyrra mætti hún sem djákni en vissi ekkert um hvað djáknar talar. Það tekur enginn eftir því að hún er í karakter því að það man til dæmis engin alveg hvernig hún þekkir fermingarbarnið. En henni leið samt illa því að henni fannst hún hafa klúðrað hlutverki djáknans og ákvað að mæta aldrei aftur sem önnur persóna í fermingarveislu.

En hún gæti aldrei mætt sem hún sjálf og sumum finnst það sorglegt en hún er samt aldrei nær sér en þegar hún er í hlutverki annarra. Þá rétt á meðan fær hún frið. Þannig að í ár hefur hún, eins og áður segir, ákveðið að mæta sem keramiker.

Að fara út í búð sem faðir, áhugamaður um osta og eiginmaður konu á túr. Að nota sama símann til að senda mynd af typpinu á sér og til að skipuleggja bingó í Hjallastefnunni. Fólk brennur út alls staðar og þar er leiklistinni um að kenna. Fólk stundar method leik. Það lifir sig inn í hlutverk sín og hverfur sjálfu sér. Og hlutverkin eru of mörg og það er ómögulegt að sætta þau. Fólk trúir eigin leik.

Það sem keramikerinn og leikkonan gera, er kannski fyrsta skrefið í átt að því að komast handan hlutverksins. Þær ákveða báðar hvaða hlutverki þær gegna og leika ekki bara það sem þær eru beðnar um. Sama má segja um eina dragdrottningu úti á landi sem kemur oft óumbeðin fram sem Soffía frænka og sofnar ölóð og lætur sig dreyma um það að Kasper, Jesper og Jónatan ræni henni um miðja nótt.

Ég er ekki einhver höfundur sem skrifar þetta, ég er það sem er að baki þessum höfundi sem skrifar þetta. Og það er stærra og merkilegra af því að það er hið sama og liggur að baki þér.

Það er auðvelt að vera dónalegur við búðarmann. Það er hins vegar erfiðara að vera dónalegur við mann sem vinnur í búð. Um leið og ég byrja að sjá í gegnum mín eigin hlutverk fer ég að sjá í gegnum hlutverk annarra og líf mitt fyllist af raunverulegu fólki.

Það er ekki hægt að hætta neinu, það er bara hægt að byrja á nýju:

Það eru 47 áhugaleikfélög á landinu. Þar er fólk sem fannst ekki nóg að leika kermiker án þess að nokkur sæi til. Á www.leiklist.is geturðu fundið áhugaleikfélagið í þinni byggð. Kannski er verið að leita að Soffíu frænku og kannski finnst hún í þér.

Við hina segi ég: Þú ert ekki bara einhver drullusokkur sem svarar ekki emailum. Þú ert sjálfur alheimurinn, ekki leika neitt minna.

 

Tyrfingur Tyrfingsson hefur skrifað leikritin Kartöfluæturnar, Bláskjár og Auglýsing ársins. Á næsta leikári má sjá verk hans Helgi Þór rofnar í Borgarleikhúsinu.