Erindi vegna sjálfstætt starfandi listamanna og Covid

Ásmundur Einar Daðason

Félags – og barnamálaráðherra

 

Lilja Alfreðsdóttir

Mennta – og menningarmálaráðherra

Reykjavík 13. febrúar 2020

Hæstvirtir ráðherrar

 

Þessar vikurnar horfum við öll upp á nokkuð fordæmalausa atburðarrás í samfélaginu og heiminum öllum.    Það er þakkarvert hversu vel opinberir aðilar halda utan um mál er varðar heilbrigðishlutann og eflaust koma nýlega kynntar aðgerðir fyrirtækjum landsins til hjálpar.   Einnig hefur verið tryggður réttur starfsmanna til launa vegna sóttkvíar.

Fleiri anga þarf að skoða.   Ég skrifa ykkur vegna sjálfstætt starfandi listamanna sem er hópur í mjög viðkvæmri stöðu.

Fjölmargir viðburðir hafa nú þegar verið afbókaðir og listamennirnir sitja uppi með skellinn.   Nú er framkomið samkomubann.  Þeir leikarar sem vinna hjá atvinnuleikhúsunum eru launamenn með kjarasamningsbundin réttindi.   En þeir sem starfa hjá sjálfstæðum leikhópum fá bara greitt fyrir þær sýningar sem þeir leika og það eru verktakalaun.    Ekkert formlegt ráðningarsamband er þar og því alla jafna engar greiðslur falli sýning eða viðburður niður.

Þessir einstaklingar hafa í raun engan varasjóð að ganga í þegar verkefnin detta upp fyrir, margir eru með blandaða atvinnu, eru sumir í hlutastarfi en aðaltekjurnar koma af viðburðartengdri vinnu og nú þegar hefur orðið tjón sem eingöngu mun aukast.

Stjórn FÍL veltir því hér upp hvort hægt væri að setja upp tímabundið einhverskonar „verkefnasjóð sjálfstætt starfandi“ þar sem þessi hópur hefði tækifæri til að sækja um styrk vegna verkefna sem ekkert varð af  þ.e. verkefni féll niður vegna COVID19.

Við óskum hér með eftir fundi hið fyrsta til að fara yfir þessi mál.

 

Virðingarfyllst f.h. stjórnar FÍL

 

Birna Hafstein

formaður FÍL