Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista – niðurstaða könnunar

október 22, 2020

Rafræn kynning á skýrslu RIKK – Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands, Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista, verður haldin miðvikudaginn 28. október 2020 klukkan 15.00.
Í nýrri skýrslu RIKK kemur fram að einelti og kynbundin og kynferðisleg áreitni eru rótgróin vandamál innan sviðslista á Íslandi. Skýrslan, sem ber heitið Einelti og áreitni í starfsumhverfi sviðslista, var unnin að frumkvæði Sviðslistasambands Íslands.
Gagna var aflað vorið 2019 með rafrænni spurningakönnun meðal félaga í fagfélögum sviðslistafólks á Íslandi. 52% þátttakenda svöruðu spurningu um reynslu af kynferðislegri áreitni í tengslum við nám sitt og störf í sviðslistum játandi og 46% samsvarandi spurningu um kynbundna áreitni. Kristín A. Hjálmarsdóttir kynjafræðingur er höfundur skýrslunnar og Elín Björk Jóhannsdóttir, verkefnisstjóri RIKK, er ritstjóri hennar. Jafnréttissjóður Íslands styrkti rannsóknina.
Niðurstöður skýrslunnar sýna eftirfarandi:
• Konur verða fremur fyrir kynferðislegri áreitni en karlar eða sex af hverjum tíu konum á móti fjórum af tíu körlum.
• Sviðslistakonur (55%) eru líklegri en starfsbræður þeirra (31%) til að verða fyrir kynbundinni áreitni.
• Um þrír af hverjum tíu þátttakendum sögðust hafa upplifað einelti í tengslum við störf sín eða nám í sviðslistum.
• Bæði konur og karlar áreita og leggja í einelti, en meirihluti gerenda eru karlar.
• Helsta afleiðing áreitni og eineltis hjá bæði konum og körlum er vanlíðan í starfi. Einnig má greina löngun til að hætta í vinnunni og öryggisleysi utan vinnunnar hjá báðum kynjum.
Áreitni og einelti hafa verið og eru enn umfangsmikið vandamál innan sviðslista á Íslandi og há tíðni bendir til þess að skýringa sé ekki síður að leita í menningu sviðslistanna en hjá einstaklingum. Enn fremur sýna niðurstöður skýrslunnar að það skortir fræðslu, skýra stefnu, formlega ferla og úrræði fyrir þolendur.
Skýrsluna má nálgast á heimasíðu RIKK https://rikk.hi.is/einelti-og-areitni-i-starfsumhverfi-svidslista/
og tengil á kynninguna á Zoom hér https://eu01web.zoom.us/j/68846981187#success

 

Instagram feed