Alþjóðlegi dansdagurinn 29. apríl

Alþjóðlega leikhússtofnunin ITI -International Theatre Institute

Alþjóðastofnun fyrir sviðslistir

 

 

Höfundur orðsendingar alþjóðlega dansdagsins, 29. apríl árið 2021:

Friedemann VOGEL frá Þýskalandi

Ballettdansari

 

____________________________________________________

 

Orðsending í tilefni alþjóðlega dansdagsins eftir Friedemann VOGEL

 

 

Allt byrjar með hreyfingu – eðlishvöt sem er okkur öllum sameiginleg – og dansinn er hreyfing sem er öguð til þess að miðla. Óaðfinnanleg tækni er vissulega mikilvæg og tilkomumikil, en þegar allt kemur til alls þá skiptir það sem dansarinn tjáir inni í hreyfingunni öllu máli.

 

Sem dansarar erum við stöðugt á hreyfingu í þeim tilgangi að reyna að skapa þessar ógleymanlegu stundir. Sama hver danstegundin er, þá er þetta drifkraftur allra dansara. Þegar leikhúsum hefur svo allt í einu verið lokað og hátíðum frestað og við megum ekki koma fram lengur, þá hefur heimurinn okkar stöðvast. Engin líkamleg snerting. Engar sýningar. Engir áhorfendur. Aldrei fyrr í manna minnum hefur danssamfélagið staðið frammi fyrir jafn sameiginlegri áskorun um að halda áhuganum vakandi og finna tilvistarlegan tilgang okkar.

 

Það er samt einmitt þegar eitthvað dýrmætt hefur verið tekið frá okkur sem við gerum okkur raunverulega grein fyrir mikilvægi verka okkar og hve mikla þýðingu dansinn hefur fyrir allt samfélagið. Dönsurum er oft hampað fyrir líkamlega færni sína þegar reyndin er sú að oftast er það frekar andlegi styrkurinn sem heldur okkur gangandi. Ég tel að það sé þetta einstaka sambland af líkamlegri og sálrænni snerpu sem muni hjálpa okkur að sigrast á ástandinu og endurskapa okkur til að við getum haldið áfram að dansa og veita innblástur.